Fara í innihald

Urho Kekkonen

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Urho Kaleva Kekkonen)
Urho Kekkonen
Kekkonen árið 1977.
Forseti Finnlands
Í embætti
1. mars 1956 – 27. janúar 1982
Forsætisráðherra
ForveriJuho Kusti Paasikivi
EftirmaðurMauno Koivisto
Forsætisráðherra Finnlands
Í embætti
17. mars 1950 – 17. nóvember 1953
ForsetiJuho Kusti Paasikivi
ForveriKarl-August Fagerholm
EftirmaðurSakari Tuomioja
Í embætti
20. október 1954 – 3. mars 1956
ForsetiJuho Kusti Paasikivi
ForveriRalf Törngren
EftirmaðurKarl-August Fagerholm
Persónulegar upplýsingar
Fæddur3. september 1900
Pielavesi, stórfurstadæminu Finnlandi
Látinn31. ágúst 1986 (85 ára) Helsinki, Finnlandi
ÞjóðerniFinnskur
StjórnmálaflokkurMiðflokkurinn
MakiSylvi Salome Uino
BörnMatti, Taneli
HáskóliHáskólinn í Helsinki
StarfStjórnmálamaður
Undirskrift

Urho Kaleva Kekkonen (3. september 190031. ágúst 1986) var finnskur stjórnmálamaður sem var forsætisráðherra Finnlands á árunum 1950–1953 og 1954–1956 og síðar áttundi forseti Finnlands (1956–1982).[1] Hann var þaulsetnasti forseti í sögu Finnlands. Kekkonen viðhélt „virkri hlutleysisstefnu“ forvera síns, Juho Kusti Paasikivi, en sú stefna varð síðar þekkt sem „Paasikivi–Kekkonen-línan“.[2][3] Samkvæmt henni viðhélt Finnland sjálfstæði sínu í sama mund og ríkið átti í stórtækri verslun við meðlimi bæði Atlantshafsbandalagsins og Varsjárbandalagsins.

Æviágrip[breyta | breyta frumkóða]

Æska og menntun[breyta | breyta frumkóða]

Urho Kekkonen fæddist í Pielavesi í Mið-Finnlandi og var elstur þriggja systkina. Foreldrar hans voru finnskir þjóðernissinnar og Urho gekk í samskóla í Kajaani.[4] Urho Kekkonen barðist með her hvítliða í finnsku borgarastyrjöldinni árið 1918 og var meðal annars falið að stjórna aftöku níu óbreyttra borgara úr röðum rauðliða nóttina 25. og 26. maí.[5]

Kekkonen tók lögfræðipróf við Háskólann í Helsinki þegar hann var 28 ára gamall og hlaut doktorsnafnbót árið 1936. Hann var kunnur íþróttaunnandi og var um skeið Finnlandsmeistari í hástökki. Árið 1932 varð hann forseti finnska íþróttasambandsins.[6]

Stjórnmálaferill[breyta | breyta frumkóða]

Frá byrjun þriðja áratugarins vann Kekkonen fyrir finnsku leyniþjónustuna og fékkst við að elta uppi kommúnista sem komu til Finnlands yfir landamærin frá Rússlandi.[5] Kekkonen var innanríkisráðherra í ríkisstjórn finnska Bændaflokksins (Miðflokksins) á árunum 1936 til 1937 og barðist á þeim tíma gegn uppgangi fasisma í Finnlandi.[7]

Á tíma vetrarstríðsins milli Finnlands og Sovétríkjanna varð Kekkonen andstæðingur allrar viðleitni til samningagerðar milli ríkjanna. Kekkonen fagnaði innrás Þýskalands í Sovétríkin í júní 1941 og taldi hana í upphafi fela í sér mikil tækifæri fyrir Finnland. Finnar gengu á þessum tíma í lið með Þjóðverjum og háðu hið svokallaða framhaldsstríð gegn Sovétmönnum. Haustið 1943 varð Kekkonen hins vegar ljóst að Þjóðverjar myndu tapa stríðinu gegn Sovétríkjunum og því gekk hann til liðs við þá sem vildu ljúka þátttöku Finna í stríðinu með samningum.[7]

Þegar Carl Gustaf Emil Mannerheim varð forseti Finnlands í ágúst 1944 var Kekkonen gerður dóms- og innanríkisráðherra í ríkisstjórn Juho Kusti Paasikivi forsætisráðherra. Í því embætti hafði Kekkonen umsjón með saksóknum gegn finnskum ráðamönnum sem taldir voru bera ábyrgð á þátttöku Finnlands í stríðinu.[8] Þegar Mannerheim sagði af sér og Paasikivi varð forseti varð Kekkonen forsætisráðherra Finnlands frá 1950 til 1956 til skiptis við Karl-August Fagerholm.[7]

Forsetatíð (1956–1982)[breyta | breyta frumkóða]

Kekkonen bauð sig fram til forseta Finnlands þegar Paasikivi lét af störfum árið 1956. Engum frambjóðanda tókst að ná meirihluta kjörmanna í fyrstu kosningaumferðinni en í þriðju umferð bauðst Alþýðufylking kommúnista og sósíalista til að styðja framboð Kekkonens með því skilyrði að flokkurinn yrði tekinn inn í ríkisstjórn eftir sigur hans. Sovéski utanríkisráðherrann Vjatsjeslav Molotov sendi jafnframt tvo KGB-liða til Finnlands til þess að tryggja kosningu Kekkonens.[9] Kekkonen var að endingu kjörinn forseti í þriðju umferð með 151 atkvæði gegn 149 atkvæðum sem Karl-August Fagerholm hlaut.[10]

Kjöri Kekkonens á forsetastól var ákaft fagnað í Sovétríkjunum vegna fyrirheita hans um að hann myndi halda fast í hlutleysisstefnuna sem Finnland hafði tekið upp í stjórnartíð Paasikivi.[11] Sem forseti þótti Kekkonen harður í horn að taka og hann varð því töluvert umdeildur meðal Finna á fyrsta kjörtímabili sínu. Þar sem tvísýnt þótti um horfur Kekkonens til endurkjörs árið 1961 greip hann til þess að rjúfa þing til þess að geta att andstæðingum sínum úr röðum sósíalista og íhaldsmanna hverjum gegn öðrum. Kekkonen fékk átyllu til þess að rjúfa þing eftir að sovéski utanríkisráðherrann Andrej Gromyko sendi finnska sendiráðinu í Moskvu orðsendingu um nauðsyn þess að hefja viðræður um öryggismál milli ríkjanna.[12] Kekkonen rauf í kjölfarið þing og vísaði til þess að almenningur yrði að fá úr um það skorið hvort vinsamlegri utanríkisstefnu gagnvart Sovétríkjunum yrði viðhaldið eða ekki. Bandalag andstæðinga Kekkonens hrundi í kjölfarið og hann vann auðveldlega endurkjör á forsetastól.[13]

Kekkonen með Sovétleiðtoganum Níkíta Khrústsjov, í sextíu ára afmælisveislu Kekkonens árið 1960.

Árið 1961 leiddi stjórn Kekkonens Finnland inn í Fríverslunarsamtök Evrópu. Til að ná þessu fram varð Kekkonen að eiga viðræður við sovéska leiðtogann Níkíta Khrústsjov, sem hann átti í góðum samskiptum við, og undirrita tollasamning við Sovétríkin.[13]

Kosningabandalag Kekkonens, sem samanstóð af Miðflokknum, jafnaðarmönnum, kommúnistum og vinstrisósíalistum, Sænska þjóðarflokknum og fólki utan flokka, vann afgerandi sigur í forsetakosningum árið 1968. Þetta sama ár varð Finnland fyrir áfalli þegar aðildarríki Varsjárbandalagsins gerðu innrás í Tékkóslóvakíu til að binda endi á vorið í Prag.[14] Kekkonen kallaði sovéska sendiherrann í Helsinki, Andrej Koljakov, á sinn fund en vísaði honum á dyr og sakaði hann um að ljúga að sér þegar hann tjáði honum að innrásin hefði verið gerð að beiðni ríkisstjórnar Tékkóslóvakíu.[15]

Kekkonen á árabáti við Harpsund með sænska forsætisráðherranum Tage Erlander árið 1967.

Stefna Kekkonens leiddi til gagnrýni í fjölmiðlum og á Vesturlöndum um að hann sýndi Sovétríkjunum fylgispekt. Hugtakið „Finnlandísering“ var fundið upp til að lýsa undirgefni Finna við stórveldið í austri. Kekkonen og stuðningsmönnum hans gramdist þessi gagnrýni og færðu rök fyrir því að utanríkisstefna Finna byggðist á raunsæi og staðreyndum.[6] Með því að taka tillit til hagsmuna Sovétríkjanna á alþjóðavettvangi hefði Finnum tekist að viðhalda fullveldi sínu og forðast að verða kommúnískt leppríki Sovétmanna á sama hátt og flest ríki Austurblokkarinnar í kalda stríðinu.[16]

Stjórn Kekkonens, sér í lagi erindrekinn Ralph Enckell, áttu frumkvæði að því að skipuleggja öryggismálaráðstefnu í Helsinki árið 1975, sem leiddi til þess að 35 ríki, þar á meðal Sovétríkin undirrituðu Helsinkisáttmálann svokallaða þann 1. ágúst þetta ár. Sáttmálinn fól í sér kröfu um frið og óhagganleg landamæri ásamt skyldur til að virða mannréttindi og lýðræðisleg vinnubrögð.[17]

Kekkonen var endurkjörinn forseti árið 1978 með fylgi allra helstu stjórnmálaflokka Finnlands og án veruegrar mótstöðu. Á þessum tíma var heilsu Kekkonens þó farið að hraka og því farið að gæta aukinnar andstöðu gegn honum meðal finnskra stjórnmálamanna. Árið 1981, á tíma kreppu á vinnumarkaðinum, krafðist Kekkonen þess að forsætisráðherrann Mauno Koivisto bæðist lausnar. Venja var fyrir því að finnska ríkisstjórnin segði af sér ef forsetinn óskaði þess en Koivisto leitaði hins vegar ráða lagakanslara og svaraði því í kjölfarið að hann myndi ekki segja af sér, enda væri ríkisstjórnin samkvæmt stjórnarskrá aðeins ábyrg gagnvart þinginu en ekki forsetanum.[18] Með þessu kom Koivisto alvarlegu höggi á forsetavald Kekkonens og hvatti fjölmiðla til gagnrýnni umfjöllunar um forsetann en tíðkast hafði á undanförnum árum.[19]

Starfslok og andlát[breyta | breyta frumkóða]

Kekkonen fór í veikindafrí í september árið 1981 og Koivisto tók því við forsetaembættinu til bráðabirgða. Vinsældir Koivistos jukust mjög á þessum tíma og æ fleiri Finnar sögðust vilja að hann tæki við Kekkonen á forsetastól. Forsetakosningar voru að endingu haldnar í janúar 1982 þar sem Koivisto vann afgerandi sigur.[19] Kekkonen hvarf því frá völdum eftir rúman aldarfjórðung og settist að á Eikarodda. Hann lést aðfaranóttina 31. ágúst árið 1986, þremur dögum fyrir 86 ára afmælisdaginn sinn.[20]

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Borgþór Kjærnested (2017). Milli steins og sleggju: Saga Finnlands. Reykjavík: Skrudda. ISBN 9789935458728.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Ministerikortisto“ (finnska). Valtioneuvosto.
  2. „Kekkonen sjötugur“. Morgunblaðið. 3. september 1970. bls. 14.
  3. Borgþór S. Kjærnested (24. febrúar 1982). „Urho Kekkonen: Áhrifamesti þjóðhöfðingi síns tíma á Norðurlöndum“. Þjóðviljinn. bls. 7.
  4. Borgþór Kjærnested 2017, bls. 345.
  5. 5,0 5,1 Borgþór Kjærnested 2017, bls. 346.
  6. 6,0 6,1 „Urho Kekkonen: Réð lögum og lofum í aldarfjórðung“. Morgunblaðið. 2. september 1986. bls. 26–29.
  7. 7,0 7,1 7,2 Borgþór Kjærnested 2017, bls. 347.
  8. „Kekkonen forseti Finnlands“. Samtíðin. 1. október 1956. bls. 11–14.
  9. Borgþór Kjærnested 2017, bls. 350.
  10. Borgþór Kjærnested 2017, bls. 351.
  11. Borgþór Kjærnested 2017, bls. 352.
  12. Borgþór Kjærnested 2017, bls. 353.
  13. 13,0 13,1 Borgþór Kjærnested 2017, bls. 354.
  14. Borgþór Kjærnested 2017, bls. 355.
  15. Borgþór Kjærnested 2017, bls. 356.
  16. Borgþór Kjærnested 2017, bls. 364.
  17. Borgþór Kjærnested 2017, bls. 373.
  18. Borgþór Kjærnested 2017, bls. 374.
  19. 19,0 19,1 Borgþór Kjærnested 2017, bls. 375.
  20. Borgþór Kjærnested 2017, bls. 378.


Fyrirrennari:
Karl-August Fagerholm
Forsætisráðherra Finnlands
(17. mars 195017. nóvember 1953)
Eftirmaður:
Sakari Tuomioja
Fyrirrennari:
Ralf Törngren
Forsætisráðherra Finnlands
(20. október 19543. mars 1956)
Eftirmaður:
Karl-August Fagerholm
Fyrirrennari:
Juho Kusti Paasikivi
Forseti Finnlands
(1. mars 195627. janúar 1982)
Eftirmaður:
Mauno Koivisto