Fara í innihald

Embætti landlæknis

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Landlæknir Íslands)

Embætti landlæknis (eða landlæknisembættið) er íslensk ríkisstofnun sem hefur það markmið að tryggja gæði heilbrigðisþjónustu, stuðla að heilsueflingu, og forvörnum.[1] Sá sem stýrir embættinu kallast landlæknir.

Fyrsti landlæknir á Íslandi var Bjarni Pálsson en hann var skipaður í embættti 18. mars 1760. Aðsetur landlæknis var í Nesstofu við Seltjörn á Seltjarnarnesi frá 1763 til 1834. Í fyrsta erindisbréfi landlæknis var honum falið að hafa umsjón með heilbrigðismálum landsins, veita sjúkum læknishjálp, kenna lækningar og uppfræða ljósmæður auk þess að vera lyfsali og sjá um sóttvarnir.

Á tímabilinu 1760–1799 voru stofnuð fimm læknisembætti á Íslandi auk embættis landslæknis og árið 1828 bættist læknisembætti í Vestmannaeyjum við. Læknisembættum fjölgaði ekki á landinu fyrr en með tilkomu Læknaskólans, sem stofnaður var í Reykjavík 1876. Í kjölfar þess urðu læknishéruðin alls tuttugu. Aukin umsvif heilbrigðisþjónustunnar og þar með vaxandi ábyrgðarsvið landlæknis hafa haldist í hendur æ síðan.

Landlæknir hefur frá öndverðu haft með höndum umfangsmikið hlutverk á sviði heilbrigðisþjónustu, jafnt sem læknir og embættismaður í þjónustu heilbrigðisyfirvalda. Meginverkefni landlæknis hefur lengst af verið að hafa eftirlit og yfirumsjón með læknum landsins og öðrum heilbrigðisstarfsmönnum.

Annað meginverkefni landlæknis í upphafi var að veita sjúkum læknishjálp. Sá þáttur í störfum landlæknis hefur með tímanum þróast yfir í áherslu á almenna heilsuvernd, að fylgjast með heilbrigði landsmanna og efla lýðheilsu, og er þetta stór þáttur í starfi embættisins, ekki síst eftir að starfsemi Lýðheilsustöðvar var sameinuð Embætti landlæknis með lögum 1. maí 2011.

Enn ber að nefna samfellu í fræðslustarfi, sem var ein helsta skylda landlæknis í öndverðu og er enn á 21. öld einn þáttur í störfum hans og margra sérfræðinga sem starfa við embættið. Er þá ónefnd óslitin söfnun og úrvinnsla upplýsinga ásamt skýrslugerð um heilbrigðismál í landinu allt frá fyrstu tíð til vorra daga.

Embætti landlæknis er eitt elsta samfellda embætti Íslandssögunnar.

Landlæknar á Íslandi[breyta | breyta frumkóða]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Um embættið“. Sótt 15. mars 2010.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]